fimmtudagur, 5. september 2013

Te, dúskar og vínarbrauð. Hver er ég?

Fyrsta færslan er í tilefni þess að ég er að eyða degi númer tvö í inniveru sökum veikinda. 
Ég ákvað að taka mér þetta sumar í sumarfrí til þess að sinna fjölskyldunni, vinum, áhugamálum og huga að sálinni. Í fyrsta skiptið síðan ég byrjaði að vinna 12 ára gömul (þó bara sem barnapía fyrst) hef ég tekið heilt sumar í frí. Fólki finnst það svo eðlilegt að nemendur sinni skólanum vel allan veturinn og vinni síðan myrkranna á milli yfir sumartímann og jafnvel með skóla og hingað til hafði það ekki verið vandamál, ég gerði bara það sama og aðrir jafnaldrar mínir. 
Nú er ég þannig týpa að það er allt eða ekkert og ef það er eitthvað sem mér dettur í hug að gera og er svo staðföst og áhugasöm þá gef ég ekkert undan. Ég er semsé í námi í þeirri frábæru borg Barcelona, að læra innanhúsarkitekt, eitthvað sem hefur ávalt heillað mig og verið mitt aðal áhugamál. Ég átti ekki alveg von á hvernig skólinn myndi reynast mér eða hvernig ég myndi taka á hlutunum, ég varð mikið kvíðin og stressuð og átti alls ekki auðvelt með að vaka heilu sólarhringana eins og þykir eðlilegt þar. 

Þeir sem mig þekkja vita að stress, svefnleysi og hungur gera mig að einskonar skapvondu mannskrímsli. En nú skal verða breyting á, héðan í frá ætla ég mér að reyna að njóta þess meira í stað þess að hafa endalausar áhyggjur og kvíða. Þrátt fyrir að námið sé strangt og erfitt þá má ég ekki gleyma hvers vegna ég fór í það og leyfa mér að hafa gaman, innanhúshönnun hefur jú alltaf verið mitt aðal áhugamál. Allt frá arkitektúr í föndur og hönnun á hinum ýmsu litlu hlutum sem geta heimilið bætt og fegrað.

Það er lexía sumarsins, að læra að njóta og hafa gaman. Sjáum hvort þetta hugarfar gleymist nokkuð á miðri leið, þá er ég allavega með það hér með ritað hvað mitt markmið fyrir þessari skólaönn er.

Fyrst ég þarf að eyða þessum fallega haust sólskinsdegi innandyra fannst mér það tilvalið að hefja þetta blogg sem mun snúast um hitt og þetta, allt frá dundi og föndri, hugleiðingum og gjörðum og lífi okkar Áslaugar, unnustu minnar,  í Barcelona. 
Við munum brátt fara aftur til Barcelona, enda er sumarið komið á enda og þá verður spennandi að sjá hvað við munum hafast við í Barcelona. 

Ásamt blogg-lærdómi í dag hef ég verið að hafast við að gera dúska mottu, eða reyndar hef ég verið að dunda mér í henni af og til í allt sumar en nú er ég búin að vera í ágætis pásu frá dúskagerð, þetta tekur eilítið lengri tíma en ég átti von á. 



Ég varð alveg heilluð af þessari mjúku, "fluffy" mottu frá MYK sem ég fann þegar ég var að leita að mynd sem ég sá fyrir um ári síðan af útibekk sem hafði verið hlaðinn af dúskum. Ég hugsaði strax að þetta yrði fullkomið inn í barnaherbergi og til gamans ákvað ég að gera prufu af svona mottu. Ég nota reyndar garn sem er 80 % akríl og 20 % ull en í mottunum frá MYK er einungis notast við 100 % ull. Hér að neðan getið þið séð lýsinguna á hönnuninni og ég mæli með að þið kíkið á síðuna og skoðið fleiri verk eftir hana. 

"The " Bommel" also known as Pompon is crafted entirely by hand. Several hundred wool threads are bundled, rolled ,tied, and cut, all of carefully selected high-end quality wool. There are up to 1300 woollen pompons and respectively up to 45 kg of wool forming one single object."

Ekkert smá verk, enda hef ég tekið mér margar pásur og er samt bara komin með rétt rúmlega 30 dúska!
Ég er líka komin með vinnukonu, hún Áslaug mín stendur sig vel.







Ég ætla að ljúka þessu fyrsta bloggi mínu með te, dúskum og vínarbrauði sem er búinn að vera hápunktur dagsins míns, fyrir utan að hafa startað þessu bloggi auðvitað.






Bestu kveðjur þangað til næst. 

T



4 ummæli:

  1. Ánægð með þig að byrja að blogga! og mottan er æðisleg, gangi ykkur vel með hana, aðeins 1270 dúskar eftir! ;)

    SvaraEyða
  2. Takk fyrir elsku vinkona, mér þætti gaman að sjá þig blogga, þú ert alltaf að gera eitthvað nýtt og spennandi sem væri gaman að fylgjast með! :)

    Ég held ótrauð áfram í dúskagerð en býst við því að hún verið eilítið minni eða allavega nokkra mánuði í bígerð ;)

    SvaraEyða
  3. Verður gaman að fylgjast með þér á blogginu. Hvað verða þetta margir metrar af garni? ;-)

    SvaraEyða
  4. Takk fyrir það pabbi :) En já það væri gaman að vita, allavega þegar ég verð búin með þessa dokku þá verð ég búin að nota ca. 1680 metra af garni í dúska en af því hefur síðan eitthvað verið klippt til svo getur vel verið að ég þurfi meira!

    SvaraEyða