sunnudagur, 22. september 2013

Litríkur Lauuu...sunnudagur - Grár

Það er fátt notarlegra en að kúra sig inn í þykkt teppi og taka eins og einn sófakartöflu kúri sunnudag, ég er alveg í þeim gírnum í dag þrátt fyrir að sólin skíni og ég ætti kannski að vera að gera eitthvað mikilvægt í dag. Því í dag er jú seinasti sunnudagurinn á Íslandi í bili, og í gær var seinasti laugardagurinn á Íslandi í bili svo við Áslaug fórum og hittum góða vini í gærkvöld, spiluðum og hlógum mikið. Þrátt fyrir það sé leiðinlegt að kveðja vinina hérna heima þá bíða okkar góðir vinir í Barcelona sem okkur hlakkar mikið til að hitta, það er alltaf eitthvað jákvætt. 

Grár er klassískur litur og hentar vel með öllum öðrum litum, er alltaf elegant og stílhreinn. Hann er samt sem áður "litur" depurðinnar og margir tengja hann við eitthvað því um líkt. Vinsældir gráa litsins hafa verið  mjög miklar síðustu ár og hafa sumir velt því fyrir sér hvort það gæti tengst almennri líðan vegna efnahagslífsins, sálfræðingar hafa bent á að fólk sem klæðist mikið gráum lit er að sýna merki um það að það vill ekki vera áberandi og jafnvel með lítið sjálfstraust. Að nota mikið af gráum í kringum sig gæti því þýtt að við séum að vernda okkur fyrir því sem við vitum ekki hvað er að fara að gerast, svo ómeðvitað gætum við verið að nota gráa litinn til þess að vernda okkur og finnast örugg. 
Grár litur getur haft róandi áhrif á þá sem eru áhyggjufullir eða stressaðir en gæti  dregið okkur of mikið niður ef við notum of mikið af gráum tónum. Þeir geta dregið mikið úr orkunni okkar og látið okkur líða eins og við séum alveg uppgefin, svo gott er að hafa gráan með öðrum litum en ekki hafa einungis allt í gráum tónum.

Mælt er með að forðast gráan lit í svefnherbergjum, barnaherbergjum og líka þar sem krefst mikillar sköpunargáfu!
Þrátt fyrir það finnst mér grái liturinn fallegur og er hægt að velja um kalda og hlýja gráa liti, hlýr grár litur er þá blandaður með gulum en kaldur með bláum og þarf þá að passa valið og reyna að hafa hlutina í sömu gráu tónum en ekki blanda hlýjum og köldum saman. Grár er akkúrat andstæðan við gula litinn sem ég fjallaði um seinast og þess vegna er gott að blanda þeim saman. 

Þetta þýðir þó ekki að allir sem hafa gráa tóna hjá sér séu annað hvort þunglyndir eða kvíðasjúklingar, alls ekki, en þetta vilja sumir sálfræðingar meina og benda á hvernig er þá hægt að nota þennan fallega lit á sem besta hátt svo hann njóti sín vel.
Það kemur manni á óvart hvað litir hafa mikil áhrif á okkur en höfum það í huga að litir hafa ekki sömu áhrif á alla. 



1. Huggulegt og smart teppi frá FermLiving. 2. PH5 ljósið eftir Poul Henningsen hefur verið mjög áberandi undanfarið. Það fæst í Epal. 3. Þessi fallegu rúmföt eru frá By Nord, einnig er hægt að fá fleiri dýraprint. 4. Iittala vasinn eftir Alvar Aalto er alltaf klassískur. 5. Risa púði fyrir gólfið er virkilega huggulegur. 6. Carl Hansen & son stóllinn, Heritage Chair fæst í Epal. 7. Þetta fallega marmara borð er héðan CB2. 8. Fallegir vasar frá House Doctor.




Góðar stundir.
T

sunnudagur, 15. september 2013

Vestfjarðarævintýrið

Ef það er ekki tilvalið að henda í eitt blogg um sumarið á þessum kalda haustdegi. Vestfjarðaferðalagið okkar Áslaugar var hápunktur sumarsins, þangað höfðum við aldrei farið og það var sannkallað ævintýri að upplifa vestfirðina í þeirri veðurblíðu sem við fengum. 
Við fórum í lok júlí af stað og enduðum svo á Ísafirði þar sem hátíðin Mýrarbolti stóð en við stöldruðum ekki lengi við þar vegna þess við vorum hreinlega uppgefnar og spáin var ekki sú besta svo okkur fannst bara fínt að enda ferðalagið á góðum hamborgara á Ísafirði og rúlla svo heim. 
Við keyrðum fyrst að Staðarskála því við vildum byrja neðst og vinna okkur upp í gegnum firðina og enda á Ísafirði og þar sem við höfðum splæst í útilegukortið þá ákváðum við að þræða tjaldsvæðin sem voru á því korti og það var hreint út sagt frábært. Mjög góð aðstaða á öllum tjaldsvæðunum sem við gistum á. 
Fyrstu nóttina gistum við á Laugum en rifum okkur snemma upp morguninn eftir því við áttum stóran dag fram undan svo ekki var stoppað þar lengi þrátt fyrir virkilega fallegt svæði. Því næst fórum við í Vatnsfjörðinn og gistum þar í Flókalundi og Áslaug prófaði að veiða örlítið þar, einnig fórum við í yndislega náttúrulaug með virkilega fallegu útsýni. Við vorum agndofa yfir fallega útsýninu yfir Vatnsfjörðinn sem var við tjaldsvæðið. Þar gistum við þó bara í eina nótt og héldum áfram ferðalaginu yfir firðina, upp og niður heiðar og bratta vegi. Sem betur fer er hún Áslaug hörku bílstjóri því ekki var ég á því að þora að sitja undir stýri á vissum svæðum og þetta rúntuðum við allt á Yaris!
Þriðja daginn fórum við á Rauðasand og Látrabjarg sem var einstök upplifun og gistum seinustu tvær næturnar á frábæru tjaldsvæði á Tálknafirði. Á leiðinni til Ísafjarðar stoppuðum við og virtum fyrir okkur hinn fallega Dynjanda. 
Ég leyfi myndunum að tala sínu máli. 



Fallegur staður sem við stoppuðum til að fá okkur nesti.

Áslaug í náttúrulauginni í Vatnsfirði

Útsýnið í Vatnsfirði

Tjaldsvæðið Flókalundur




Ansi krappar beygjur niður á Rauðasand

Heppnar þessar kindur.

Kirkjan á Rauðasandi.












Sælar í blíðunni.










Látrabjarg.



Aðeins að prófa vindsængina á vatni.


Svo varð ég bara rennandi blaut.

Áslaug prófaði að veiða.



Horft út Tálknafjörðinn.

Fallegt útsýni á leiðinni til Ísafjarðar.

Dynjandi í öllu sínu veldi.



Áslaug túristi.

Á leiðinni heim skall á óveður og hér er mynd af eyðibýli í Bitrufirði.


Bestu kveðjur. 
T


laugardagur, 14. september 2013

Litríkur laugardagur - Gulur

Þessi vika hefur liðið eins og tveir dagar, ég trúi hreinlega ekki hvað tíminn líður hratt, áður en ég veit af erum við Áslaug farnar til Barcelona aftur! Ég ætla nú að reyna að vera aðeins duglegri við að koma með blogg, en ekki bara á laugardögum.

Þegar ég var að ákveða hvaða lit ég vildi blogga um í dag sat ég ný vöknuð með kaffibollann og hafði farið öfugu megin fram úr... Ég horfði út um gluggann og hugsaði hversu hratt þetta sumar leið og nú væri komið haust með tilheyrandi litabreytingum. En eitt á þó sumarið og haustið sameiginlegt er að guli liturinn virðist vera mjög ríkjandi, sólin skín á sumrin og gul blóm spretta út um allt, á haustin verða laufblöðin á öspinni fallega gul og grasið verður einnig gulleitt. Haustið er einn fallegasti árstíminn að mínu mati og í tilefni þess þá ákvað ég að hafa lit dagsins gulan og vonandi heldur sólin áfram að skína í dag á gulu laufblöðin, svona áður en við fáum brjálaða haust veðrið hér fyrir norðan. 

Hérna eru nokkrar hugmyndir með gulri hönnun. Sólguli liturinn er allstaðar í kringum okkur svo afhverju ekki að koma þessum glaðlega lit inn til okkar líka. Guli liturinn hefur meiri áhrif á okkur en okkur grunar, hann gerir okkur glaðari og ánægðari svo ekki skemmir það fyrir (sérstaklega ekki ef við förum öfug fram úr eins og ég í morgun). 
Hlýir litir gera kósí stemningu og hafa heilmikil áhrif á andrúmsloftið, lyftir upp og birtir. Ef þið eruð að pæla í að gera íbúðina eða herbergi aðeins bjartara og þægilegra er gulur fullkominn litur til þess! 

Ég mæli samt með því að fara varlega með gula litinn og ekki fylla rýmið af gulum tónum, það gæti gert mann geggjaðann með tímanum!


1. Myndarammi er einföld og góð aðferð til þess að bæta við lit, hægt að kaupa ódýran myndaramma þess vegna í Rúmfatalagernum og spreyja hann gulann. 2. Lampi gefur bæði frá sér birtu svo ekki væri verra að hafa hann gulan líka, þessi lampi er héðan.  3. Skrautpúðar frá Debenhams. 4. Vegghillur eru frábærar á til dæmis gráum vegg. 5. Kitchen Aid vörurnar eru fallegar í öllum litum. 6. Þetta litla fallega náttborð er úr Stockholm línunni úr Ikea. 7. Rúmfötin eru líka frá Ikea. 8. Þessir fallegu barstólar frá Neiman Marcus.


Hér eru svo nokkrar hugmyndir fyrir heimilið. Grátt, svart, hvítt og viður passar einstaklega vel við gula litinn og tónar hann aðeins niður. 



Eigið frábæra helgi. 

T

laugardagur, 7. september 2013

Litríkur Laugardagur - Bleikur

Á laugardögum mun ég koma með blogg með litavali dagsins með hugmyndum fyrir heimilið. Í dag hef ég valið litinn hot pink sem sjaldan sést í stórum mæli á heimilum nema þá í barnaherbergjum en að mínu mati á hann ekki einungis heima þar. Mér persónulega finnst gaman að velja einn til tvo liti eða litabrigði til þess að poppa aðeins upp einfaldleikann. Bleikur er ekki bara barna eða stelpu litur lengur, hægt er að nota hann bæði á róandi hátt og einnig til þess að fríska upp á. 

Ég byrjaði að safna leirtauinu frá Pip Studio, sem þið getið séð á myndinni fyrir neðan, en hef einungis náð að safna fjórum yndislegum könnum sem ég hreinlega elska að drekka úr, þegar ég flyt heim aftur mun ég svo sannarlega vera dugleg að versla mér eitt og eitt stykki í safnið. 

Ég hef alltaf verið hrifin af hönnuninni eftir Arne Jacobsen og þegar ég sá þennan fagur bleika Egg stól var ég alveg dolfallin, ég get rétt ímyndað mér hversu fallegur hann myndi vera í framtíðar íbúðinni. 

 Annað á óskalistanum sem þarf vart að nefna býst ég við er Kitchen Aid hrærivélin. Hún gerir allt, bókstaflega allt. Þó ég persónulega myndi sennilega ekki velja mér þennan lit þá tel ég að hún sé falleg í hvaða lit sem er og myndi alltaf vera vera miðpunktur athyglinnar í eldhúsinu, svona ef ég tæki upp á því að fara að baka eitthvað af viti... sem gerist kannski einn daginn. 



1. Flamingo púði frá Argos.  2.Venus ljós getur  þú fengið hér.  3. Bollastell og fleira frá Pip Studio.    4.Fallegt kerti frá Broste í Kaupmannahöfn sem þú getur einnig fengið í Blómabúðinni Akur á Akureyri.  5.Motta frá Dash and Albert.   6. Egg stóllinn. 7. Kitchen Aid hrærivélina geturðu fengið hér. 8. Pushka Knobs hurða- húna færðu hér.




Sumir eru hrifnari af bleiku en aðrir og ákvað þessi djarfa kona að gera upp eldhúsið sitt á þennan hátt, ég er ekki viss um að það sé fyrir alla en mér finnst það mega krúttað þó Hello Kitty fari aðeins yfir línuna hjá mér. Á síðunni hennar getið þið séð fleiri myndir og lesið um ferlið. 



Góða helgi.
T

fimmtudagur, 5. september 2013

Te, dúskar og vínarbrauð. Hver er ég?

Fyrsta færslan er í tilefni þess að ég er að eyða degi númer tvö í inniveru sökum veikinda. 
Ég ákvað að taka mér þetta sumar í sumarfrí til þess að sinna fjölskyldunni, vinum, áhugamálum og huga að sálinni. Í fyrsta skiptið síðan ég byrjaði að vinna 12 ára gömul (þó bara sem barnapía fyrst) hef ég tekið heilt sumar í frí. Fólki finnst það svo eðlilegt að nemendur sinni skólanum vel allan veturinn og vinni síðan myrkranna á milli yfir sumartímann og jafnvel með skóla og hingað til hafði það ekki verið vandamál, ég gerði bara það sama og aðrir jafnaldrar mínir. 
Nú er ég þannig týpa að það er allt eða ekkert og ef það er eitthvað sem mér dettur í hug að gera og er svo staðföst og áhugasöm þá gef ég ekkert undan. Ég er semsé í námi í þeirri frábæru borg Barcelona, að læra innanhúsarkitekt, eitthvað sem hefur ávalt heillað mig og verið mitt aðal áhugamál. Ég átti ekki alveg von á hvernig skólinn myndi reynast mér eða hvernig ég myndi taka á hlutunum, ég varð mikið kvíðin og stressuð og átti alls ekki auðvelt með að vaka heilu sólarhringana eins og þykir eðlilegt þar. 

Þeir sem mig þekkja vita að stress, svefnleysi og hungur gera mig að einskonar skapvondu mannskrímsli. En nú skal verða breyting á, héðan í frá ætla ég mér að reyna að njóta þess meira í stað þess að hafa endalausar áhyggjur og kvíða. Þrátt fyrir að námið sé strangt og erfitt þá má ég ekki gleyma hvers vegna ég fór í það og leyfa mér að hafa gaman, innanhúshönnun hefur jú alltaf verið mitt aðal áhugamál. Allt frá arkitektúr í föndur og hönnun á hinum ýmsu litlu hlutum sem geta heimilið bætt og fegrað.

Það er lexía sumarsins, að læra að njóta og hafa gaman. Sjáum hvort þetta hugarfar gleymist nokkuð á miðri leið, þá er ég allavega með það hér með ritað hvað mitt markmið fyrir þessari skólaönn er.

Fyrst ég þarf að eyða þessum fallega haust sólskinsdegi innandyra fannst mér það tilvalið að hefja þetta blogg sem mun snúast um hitt og þetta, allt frá dundi og föndri, hugleiðingum og gjörðum og lífi okkar Áslaugar, unnustu minnar,  í Barcelona. 
Við munum brátt fara aftur til Barcelona, enda er sumarið komið á enda og þá verður spennandi að sjá hvað við munum hafast við í Barcelona. 

Ásamt blogg-lærdómi í dag hef ég verið að hafast við að gera dúska mottu, eða reyndar hef ég verið að dunda mér í henni af og til í allt sumar en nú er ég búin að vera í ágætis pásu frá dúskagerð, þetta tekur eilítið lengri tíma en ég átti von á. 



Ég varð alveg heilluð af þessari mjúku, "fluffy" mottu frá MYK sem ég fann þegar ég var að leita að mynd sem ég sá fyrir um ári síðan af útibekk sem hafði verið hlaðinn af dúskum. Ég hugsaði strax að þetta yrði fullkomið inn í barnaherbergi og til gamans ákvað ég að gera prufu af svona mottu. Ég nota reyndar garn sem er 80 % akríl og 20 % ull en í mottunum frá MYK er einungis notast við 100 % ull. Hér að neðan getið þið séð lýsinguna á hönnuninni og ég mæli með að þið kíkið á síðuna og skoðið fleiri verk eftir hana. 

"The " Bommel" also known as Pompon is crafted entirely by hand. Several hundred wool threads are bundled, rolled ,tied, and cut, all of carefully selected high-end quality wool. There are up to 1300 woollen pompons and respectively up to 45 kg of wool forming one single object."

Ekkert smá verk, enda hef ég tekið mér margar pásur og er samt bara komin með rétt rúmlega 30 dúska!
Ég er líka komin með vinnukonu, hún Áslaug mín stendur sig vel.







Ég ætla að ljúka þessu fyrsta bloggi mínu með te, dúskum og vínarbrauði sem er búinn að vera hápunktur dagsins míns, fyrir utan að hafa startað þessu bloggi auðvitað.






Bestu kveðjur þangað til næst. 

T