sunnudagur, 22. september 2013

Litríkur Lauuu...sunnudagur - Grár

Það er fátt notarlegra en að kúra sig inn í þykkt teppi og taka eins og einn sófakartöflu kúri sunnudag, ég er alveg í þeim gírnum í dag þrátt fyrir að sólin skíni og ég ætti kannski að vera að gera eitthvað mikilvægt í dag. Því í dag er jú seinasti sunnudagurinn á Íslandi í bili, og í gær var seinasti laugardagurinn á Íslandi í bili svo við Áslaug fórum og hittum góða vini í gærkvöld, spiluðum og hlógum mikið. Þrátt fyrir það sé leiðinlegt að kveðja vinina hérna heima þá bíða okkar góðir vinir í Barcelona sem okkur hlakkar mikið til að hitta, það er alltaf eitthvað jákvætt. 

Grár er klassískur litur og hentar vel með öllum öðrum litum, er alltaf elegant og stílhreinn. Hann er samt sem áður "litur" depurðinnar og margir tengja hann við eitthvað því um líkt. Vinsældir gráa litsins hafa verið  mjög miklar síðustu ár og hafa sumir velt því fyrir sér hvort það gæti tengst almennri líðan vegna efnahagslífsins, sálfræðingar hafa bent á að fólk sem klæðist mikið gráum lit er að sýna merki um það að það vill ekki vera áberandi og jafnvel með lítið sjálfstraust. Að nota mikið af gráum í kringum sig gæti því þýtt að við séum að vernda okkur fyrir því sem við vitum ekki hvað er að fara að gerast, svo ómeðvitað gætum við verið að nota gráa litinn til þess að vernda okkur og finnast örugg. 
Grár litur getur haft róandi áhrif á þá sem eru áhyggjufullir eða stressaðir en gæti  dregið okkur of mikið niður ef við notum of mikið af gráum tónum. Þeir geta dregið mikið úr orkunni okkar og látið okkur líða eins og við séum alveg uppgefin, svo gott er að hafa gráan með öðrum litum en ekki hafa einungis allt í gráum tónum.

Mælt er með að forðast gráan lit í svefnherbergjum, barnaherbergjum og líka þar sem krefst mikillar sköpunargáfu!
Þrátt fyrir það finnst mér grái liturinn fallegur og er hægt að velja um kalda og hlýja gráa liti, hlýr grár litur er þá blandaður með gulum en kaldur með bláum og þarf þá að passa valið og reyna að hafa hlutina í sömu gráu tónum en ekki blanda hlýjum og köldum saman. Grár er akkúrat andstæðan við gula litinn sem ég fjallaði um seinast og þess vegna er gott að blanda þeim saman. 

Þetta þýðir þó ekki að allir sem hafa gráa tóna hjá sér séu annað hvort þunglyndir eða kvíðasjúklingar, alls ekki, en þetta vilja sumir sálfræðingar meina og benda á hvernig er þá hægt að nota þennan fallega lit á sem besta hátt svo hann njóti sín vel.
Það kemur manni á óvart hvað litir hafa mikil áhrif á okkur en höfum það í huga að litir hafa ekki sömu áhrif á alla. 



1. Huggulegt og smart teppi frá FermLiving. 2. PH5 ljósið eftir Poul Henningsen hefur verið mjög áberandi undanfarið. Það fæst í Epal. 3. Þessi fallegu rúmföt eru frá By Nord, einnig er hægt að fá fleiri dýraprint. 4. Iittala vasinn eftir Alvar Aalto er alltaf klassískur. 5. Risa púði fyrir gólfið er virkilega huggulegur. 6. Carl Hansen & son stóllinn, Heritage Chair fæst í Epal. 7. Þetta fallega marmara borð er héðan CB2. 8. Fallegir vasar frá House Doctor.




Góðar stundir.
T

Engin ummæli:

Skrifa ummæli